Eskja hf. hefur tekið í notkun nýtt uppsjávarfrystihús sem getur unnið 600 til 900 tonn á sólarhring
Vinnsla hófst í nýju uppsjávarfrystihúsi Eskju hf. á Eskifirði fyrir hálfum mánuði og nú um miðja vikuna hafa verið tekin þar til vinnslu um 2.000 tonn af norsk-íslenskri síld. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.
„Það er krefjandi verkefni að starta nýrri og hátæknivæddri verksmiðju. Vinnslan hefur hins vegar gengið mjög vel og síldin sem við höfum fengið til vinnslu er stór og falleg, eitt besta hráefni sem völ er á,“ sagði Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá Eskju, í samtali við Fiskifréttir.
Frystihúsið er 7000 fermetrar að stærð og getur unnið um 600 til 900 tonn af uppsjávarfiski á sólarhring. Það er hannað af Skaganum hf. á Akranesi og búnaður kemur þaðan og frá samstarfsaðilum. Allir vinnsluferlar í nýja húsinu eru sjálfvirkir. Þar eru 10 vigtarkerfi, sem taka við fiskinum frá flokkurum, og 5 pökkunarvélar. Röð af myndgreinum taka myndir af hverjum fiski og henda frá skemmdum fiski.
Frysting tekur aðeins um þrjá og hálfan tíma. Afurðirnar eru frystar í snertilausum frystum þannig að varan er aldrei pressuð. Páll sagði að þessi lausn, hröð frysting og án þrýstings, tryggði hámarksgæði afurðanna. Myndin hér að ofan sýnir vinnslulínurnar í nýja húsinu. Síldin kemur frá stærðarflokkurum, fer þaðan í söfnunarkör og síðan upp í myndgreina sem eru fyrir ofan færiböndin.