Nicolai Nicolaison Þegar við Nicolai sátum saman dagpart í síðustu viku grunaði mig síst að hann ætti fáa daga ólifaða. Hann var reifur og kátur og kímnin söm við sig. Þennan dag var komið að mér að endurgjalda ótal stillingar á bílgörmunum mínum með því að stilla fyrir hann harmoniku þeirrar gerðar sem í upphafi átti stóran þátt í að góð kynni tókust með okkur. Við dáðum semsé báðir frönsku "musette"-hefðina, sem hér á landi var ekki þekkt nema af dillandi tónum í útvarpinu. Þá áttum sameiginlega aðdáun á Citroen-verksmiðjunum, sem á þessum árum stóðu að okkar mati fremstar í þróun bifreiða. Nicolai hafði farið til náms á vegum Citroen og varð fyrstur bifvélavirkja á Íslandi sérhæfður í þjónustu Citroen-bifreiða. Síðar sneri hann sér að bifreiðastillingum, fyrst með þeim fábrotnu tækjum sem þá tíðkuðust, en um leið og stillitölvur komu fram varð hann með þeim fyrstu hérlendis til að taka þær í notkun. Nicolai var undrafljótur að læra á þessi flóknu tæki og var ekki í rónni fyrr en sú fullkomnasta sinnar tegundar stóð á hans verkstæðisgólfi. Sigurður Nicolai var um þetta leyti kominn til starfa og tók smám saman við af föður sínum og hefur nú um árabil rekið verkstæðið.