Norska lögmannsstofan Wikborg Rein gætir hagsmuna Samherja í deilumáli sem rekið er fyrir namibískum dómstólum þessa dagana og snýr að sölu togarans Heinaste, sem namibísk yfirvöld hafa kyrrsett vegna meinta ólöglegra veiða. Bæði RÚV og Stöð 2 greindu frá þessu í kvöldfréttatímum sínum í kvöld og birtu bréf frá lögmanni Wikborg Rein þar sem fram kemur að lögmannsstofan komi fram fyrir hönd Samherja í málinu. Einnig er fjallað um málið á vef Stundarinnar . Norska lögmannsstofan er sem kunnugt er að vinna innanhússrannsókn á starfsemi Samherja í Namibíu, að beiðni stjórnar Samherja, en ekki hefur komið fram að á sama tíma gæti Wikborg Rein hagsmuna sjávarútvegsfyrirtækisins í lagadeilum þar í landi.