Mér varð það fljótlega ljóst, að það var ekki dæmigerður bifvélavirki sem ég hitti á verkstæðinu við Sætún fyrir nær 30 árum. Fágæt kímnigáfa blönduð nokkurri kaldhæðni og víðfeðm þekking á ólíkustu sviðum gerðu hann að forvitnilegum og heillandi persónuleika, sem auðveldlega hreif mann með. Tónlist var honum afar hugleikin, hann hafði ungur leikið á klarinett og harmoniku og jafnframt gaumgæft gerð og sérstæðni þessara hljóðfæra. Mér var það nokkurt nýnæmi að hitta fyrir mann, sem vildi kynna sér eins vel og kostur var, þær aðferðir sem leiddu til betri árangurs á hljóðfærin og þá hvort bæta mætti á einhvern hátt hönnun og smíði þeirra, t.a.m. stærð og gerð hnappahljómborðsins, sem því miður hefur löngum verið háð sérvisku hvers framleiðanda. Ekki löngu síðar vildi svo illa til, að hann slasaðist á hægri hendi við vinnu sína.