Segir Björgólfur í póstinum að þar sem Samherji hafi aldrei átt Cape Cod FS þýði það í reynd að enginn fótur sé fyrir ásökunum um peningaþvætti sem settar hafi verið fram. Segir hann að lögmenn Samherja hafi fundað með bæði skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara og hafi afhent embættunum gögn um þetta. Þá hafi einnig lögmenn frá Wikborg Rein fundað með héraðssaksóknara og verið í samskiptum við norsku efnahagsbrotadeildina Økokrim í Osló.Ítrekar Björgólfur jafnframt fyrri yfirlýsingu fyrirtækisins um að Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari og fyrrverandi starfsmaður Samherja, hafi handvalið tölvupósta sem hafi verið birtir á vefsíðu Wikileaks. Aðeins hafi 42% af tölvupóstum sem voru í tölvupósthólfi Jóhannesar á tímabilinu 2014-2016 verið birt. „Það vekur ýmsar spurningar. Hvert var efni þeirra pósta sem ekki voru birtir? Hvers vegna voru þau tímabil sem um ræðir valin en ekki allt tímabilið? Sú staðreynd að 58% af tölvupóstunum voru aldrei birt hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem telja að frásögn Jóhannesar Stefánssonar sé rétt og sannleikanum samkvæm,“ segir Björgólfur í póstinum.