Þá hefði mátt halda að þar með væri úti um alla hljóðfæraiðkun hans, en því fór fjarri. Hann gerði góðlátlegt grín að fötlun sinni og næstu árin var hann ákveðnari en nokkru sinni fyrr, að eignast franska "musette"-harmoniku og fara að æfa fyrir alvöru. Um þetta leyti voru að koma í ljós miklir myndlistarhæfileikar yngsta sonarins, Kristins Nicolai. Fátt hefði getað glatt föðurinn meira og ekki varð komist hjá því að hrífast með þegar stórar og glæsilegar myndir fóru að sjást á kaffistofu verkstæðisins. Kristinn Nicolai fluttist til Frakklands kornungur og varð óðar þekktur um alla Evrópu. Hann var þó ekki eini sonurinn sem fékkst við listræna iðju, því Sigurður og Steinþór leika á hljóðfæri og halda vonandi uppi merki föðurins, að gleðja sig við tónlist meðan aldur endist.