Nítján ára gamall maður vandaði ekki kveðjurnar þegar honum var boðið að hafa uppi lokaorð sín áður en Lögmannsréttur Gulaþings kvað upp dóm yfir honum í dag fyrir að myrða 13 ára gamla stúlku, Sunnivu Ødegård, á hrottalegan hátt með klaufhamri, svala sér kynferðislega á líki hennar og reyna að lokum að kveikja í því í smábænum Varhaug í Rogaland við vesturströnd Noregs aðfaranótt 30. júlí í fyrra. Sakborningur tók sér tveggja mínútna umhugsunarfrest áður en hann leit upp og sagði blákalt við viðstadda og án þess að minnstu tilfinningar væru þar greinanlegar: „Ég hef ekkert að segja við aðstandendur. Mér finnst best að þið séuð mér öll reið og að þið hatið mig fyrir það sem ég hef gert.“ Dómsorðið var lesið í dag, 12 ára varðveisludómur [n. forvaring ] með átta ára lágmarkstíma, sjónarmun þyngri dómur en þau 11 ár og sjö ára lágmark sem honum voru gerð í Héraðsdómi Jæren í Sandnes í Rogaland 26. júní í sumar.